Toppmeny

Norrænn þekkingargrunnur um menningu og heilsufar

Aðdragandi þekkingargrunnsins

www.menningogheilsa.org

Þróun þekkingargrunnsins hófst innan ramma norræns samstarfsverkefnis til þriggja ára, 2009–2011, um menningu og heilsufar. Verkefnið hlaut styrki úr Norræna menningarsjóðnum, frá menningarráði sænska ríkisins, héraðsstjórninni á Skáni í Svíþjóð, sambandi sveitarfélaga á Skáni, héraðsstjórninni á Sjálandi í Danmörku og ráðuneyti umönnunar- og heilbrigðismála í Noregi. Á árinu 2014 hefur þekkingargrunnurinn verið þróaður áfram í tengslum við norrænt kortlagningarverkefni um menningu og heilsufar, sem héraðsstjórnin á Skáni hefur staðið að að beiðni Norrænu ráðherranefndarinnar.

Með þekkingargrunninum viljum við efla þekkingu um menningu og heilsufar á vettvangi rannsókna, menntunar og atvinnulífs og hvetja Norðurlöndin til að miðla reynslu og góðum fordæmum sín á milli og til annarra þjóða.

Þessi kynningartexti hefur verið þýddur á ensku, finnsku og íslensku. Aðrar upplýsingar og tenglar eru á frummálinu, sænsku.

Hingað til hefur menningarnefnd héraðsstjórnarinnar á Skáni verið í forsvari fyrir þekkingargrunninn, en ekki er ljóst hvernig málum verður háttað frá og með 2015.

Logga_samverkan_liggande

Mikilvægi menningar

Nú á tímum er óumdeilt að menning og heilsufar eru nátengdir þættir og að menning er mikilvæg fyrir samfélagið og einstaklingana sem það byggja. Þessu bera fjölmörg dæmi vitni. Sífellt fleiri rannsóknir eru gerðar á þessu sviði og eru niðurstöður á þá leið, að það að sækja lista- og menningarviðburði reglulega geti stuðlað að bættri heilsu, aukinni vellíðan, skjótari endurhæfingu og ríkari tilfinningu fyrir samhengi og samfélagsþátttöku.

Eldri borgurum fjölgar hlutfallslega og æ fleiri glíma við geðræn vandamál og lífsstílssjúkdóma sem hljótast af streituvaldandi kröfum sem tilheyra nútímasamfélagi. Þetta eykur álag á samfélagið í heild. Til að takast á við það og til að viðhalda norræna velferðarlíkaninu þurfum við á nýjum aðferðum og nýstárlegum samstarfsleiðum að halda.

Það skal tekið fram að þekkingargrunnurinn geymir aðeins svör við broti þeirra spurninga sem kvikna varðandi velferðarmál framtíðarinnar, en þó teljum við að sjónarhorn menningar og heilsufars veiti mikilvæga innsýn í þau mál.

Nánar um þekkingargrunninn

Þekkingargrunnurinn er gagnagrunnur með skipulega upp settu safni tengla sem vísa á ýmiskonar efni á internetinu. Þar er um að ræða alls konar texta, meðal annars greinar og ritgerðir, auk efnis á annars konar miðlum, svo sem myndskeið og hlaðvörp.

Þó að efnið sé að stærstum hluta aðgengilegt án endurgjalds eru sumir textanna, til dæmis vissar fræðigreinar, aðeins í boði gegn gjaldi. Í þeim tilfellum birtist útdráttur úr viðkomandi grein ásamt þeim valmöguleika að sækja greinina í fullri lengd gegn greiðslu.

Í grunninum eru einnig tenglar á gagnrýni og pistla um fagbókmenntir á sviðinu. Tilgangurinn með þeim er að greina frá því að viðkomandi bækur hafi komið út og hjá hvaða forlögum. Í þeim tilvikum sem heilir textar eru aðgengilegir án endurgjalds er tengt á þá beint.

Í grunninum eru ríflega 500 tenglar. Hverjum tengli fylgir yfirskrift og stutt lýsing, auk þess sem þeir eru merktir með einum eða fleiri flokkum og að minnsta kosti einu lýsandi efnisorði.

Í gagnagrunninum eru ekki tenglar á síður fyrirtækja sem starfa í viðskiptaskyni á sviði menningar og heilsufars. Sú afmörkun er meðvituð, þar sem grunninum er ætlað að beina athygli að rannsóknum og rituðu efni á þessu sviði en ekki að styðja starfsemi fyrirtækja.

* * *

Við vekjum athygli lesenda á því að tenglar og stuttir inngangstextar eru ekki valdir eða skrifaðir af rannsakendum á viðkomandi sérsviðum. Þekkingargrunnurinn er afrakstur af samstarfi upplýsingafræðings við aðila á menningar- og heilbrigðissviði í menningarnefnd héraðsstjórnarinnar á Skáni.

Þekkingargrunnurinn býr yfir ýmsum möguleikum sem þróa mætti áfram í samstarfi rannsakenda og sérfræðinga.